Drop-in kostar 3.300 kr. og hægt að kaupa það hér
Drop-in costs ISK 3.300 and you can buy it here
Núverandi/gamall meðlimur: Hvernig kaupi ég áskrift?
Nýr meðlimur: Hvernig kaupi ég áskrift?
Algengar spurningar má sjá hér
CrossFit er skemmtileg, fjölbreytt og krefjandi líkamsrækt sem skilar einstökum árangri á breiðum grunni betra forms, vellíðunar og bættrar heilsu.
Staður til að kynnast fullt af skemmtilegu fólki sem hefur það sameiginlega markmið að koma sér í betra alhliða form.
CrossFit er alhliða styrktar- og úthaldsþjálfun sem byggist upp á stöðugt breytilegum æfingum. Æfingakerfið miðar að því að undirbúa iðkendur þess til að takast á við líkamlegar áskoranir af hvaða tagi sem er án þess að sérhæfa sig í neinni grein.
Allar æfingar í CrossFit má skala niður í erfiðleika sem gerir öllum sem vilja stunda þær kleift að stunda þær, óháð reynslu. Sömu æfingar eru notaðar af eldri einstaklingum með hjartasjúkdóma og bardagaíþróttamönnum í keppnisformi. Þyngdir og álag eru skalaðar niður en uppbyggingu æfinga er ekki breytt. CrossFit æfingar eru árangursmiðaðar og því mælanlegar. Öllum er kleift að stunda þær og allir njóta góðs af þeim.
Þeir sem ætla sér að byrja að æfa CrossFit er ráðlagt að sækja Grunnnámskeið í CrossFit. Þar eru kennd undirstöðuatriðin í beitingu líkamans í hinum ýmsu æfingum. Fimleikaæfingar, ólympískar lyftingar, ketilbjölluæfingar og aðrar tæknilegar æfingar þarf að æfa undir leiðsögn til að koma í veg fyrir meiðsli og flýta árangri.
Þar sem CrossFit er heilsteypt æfingakerfi spilar mataræði stóran hlut í árangurskúrvunni. Í mjög stuttu máli þá byggir mataræðið á grænmeti, kjöti, smá ávöxtum, hnetum og fræjum, lítilli sterkju og engum sykri. Þær vörur sem hafa langan geymslutíma skal reyna að forðast eftir bestu getu.
Ítarefni, daglegar æfingar, ógrynni upplýsinga og annað má finna á heimasíðu CrossFit: crossfit.com
Ræktun og þjálfun líkamans er eitt af því besta sem við getum gert fyrir okkur sjálf og ætti að vera stór hluti af lífsstíl okkar allra. En öllu má samt ofgera og dæmi eru um það að einstaklingar hafi bókstaflega stofnað sér í lífshættu með of miklum átökum á æfingum. "Rhabdomyolysis" er líkamlegt ástand sem getur gerst þegar vöðvaþræðir brotna niður og innihald vöðvafruma kemst í blóðrásina. Ein ákveðin efnasameind vöðvafrumna, mýóglóbín, er algjört eitur fyrir nýrun og getur stuðlað að nýrnabilun og í alvarlegustu tilfellum, dauða. Starfsfólk á bráðamóttökum þekkja vel til rákvöðvalýsu, sérstaklega í kram-slysum og þegar sjúklingar verða fyrir raflosti. Einnig eftir býflugu-stungur meðal þeirra sem eru með mjög mikið ofnæmi fyrir þeim. Í einstaka tilfellum kemur inn fólk sem hefur ofkeyrt sig á æfingu. EINKENNI OG MEÐHÖNDLUN Einkennin koma ekki í ljós fyrr en að æfingu lokinni. Þá verða vöðvarnir mjög aumir, mun aumari en hefðbundnar harðsperrur. Þá flæðir míóglóbín í blóðið og stíflast í nýrunum. Míóglóbín er efnið sem gerir kjöt rautt og þegar það síast gegnum nýrun verður þvagið dökkbrúnt, svolítið eins og kók á litinn. Önnur einkenni eru óhófleg bólga í vöðvunum, svimi og uppköst, kviðvöðvakrampar og almenn vanlíðan. Ef vatnsdrykkja og fóðrun virkar ekki er fyrsta meðhöndlun á neyðarmóttökum vökvi í æð til að reyna að skola prótínsameindirnar burt úr nýrunum. Ef það virkar ekki gæti allt eins þurft að tengja blóðrásina við blóðhreinsivél til að auðvelda nýrunum verkið. Ef ekkert er gert geta nýrun hætt að starfa sem mun leiða til dauða. Hægt er að greina rákvöðvalýsu á fyrstu stigum með blóðprufu. Þá er mælt magn annarar efnasameindar vöðvafrumna, "Creatine Phospokinase", einnig kallað CK eða CPK. Það er auðveldara að mæla CPK en mýóglóbín og gefur ágætis vísbendingu um aukið magn míóglóbíns sem er hinn raunverulegi skaðvaldur. FORVÖRN Það virðist vera að einstaklingar sem stunda reglulega þjálfun fái síður rákvöðvalýsu. Einstaklingar sem hafa ekki æft í marga mánuði eða ár og hafa mikinn vöðvamassa eiga í hættu að ofkeyra sig á æfingu ef þeir byrja of ákaft (áhættan er minni ef vöðvamassinn er lítill). Blanda af vökvaskorti og misþyrmingu vöðvanna með þessum hætti getur haft þessar afleiðingar. Besta leiðin til að koma í veg fyrir rákvöðvalýsu er að drekka vel af vatni, sérstaklega eftir æfingu, og borða vel. Í langhlaupum þarf að drekka nóg og éta sölt til að binda vökvann. Enn betri forvörn er auðvitað að auka álagið á æfingum jafnt og þétt og læra þannig á mörk líkamans. Hættan er mjög lítil á rákvöðvalýsu en þó gott að vita af henni. Ekki hafa áhyggjur af rákvöðvalýsu þótt þú fáir miklar harðsperrur eftir æfingu, en ef hendurnar á þér verða eins og á Stjána Bláa eða þú ferð að pissa kóklituðu þvagi skaltu húkka þér far upp á Slysó strax! Það er betra að hafa varan á en að eiga á hættu að skemma nýrun eða jafnvel eitthvað enn verra.